Fréttir

Hvalskurður – smíðar - gæðastjórn

Sigurður Þyrill Ingvason, gæðastjóri hjá Þorbirni hf. í Grindavík.
Hvalskurður – smíðar - gæðastjórn

Sigurður Þyrill Ingvason er gæðastjóri hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Þorbirni hf. í Grindavík. Hann á að baki langan starfsferil og meistaranám í smíðum og vann auk þess í mörg sumur í hvalskurði í Hvalstöðinni í Hvalfirði.

„Það má segja að ég hafi að hluta til alist upp í Hvalfirðinum því þegar hvalvertíðirnar hófust flutti fjölskyldan upp í Hvalfjörð og var þar meira og minna fram að skólabyrjun á haustin. Foreldrar mínir unnu í Hvalstöðinni og ég kynntist því fljótt lífinu í Hvalstöðinni og starfaði þar einnig í nokkur sumur áður en hvalveiðum var hætt árið 1989. Eftir að þær hófust aftur árið 2006 aftur var ég flestar vertíðar í hvalskurðinum.

Ég lærði húsasmíði og lauk meistaraskólanum í þeirri iðngrein. Í Hvalstöðinni vann ég stundum sem smiður að ýmsum viðhaldsverkefnum og við að leysa tæknileg vandamál varðandi vinnsluna og þá fékk ég innsýn í gæðamálin og hvað þyrfti til að uppfylla alla gæðastaðla og kröfur opinberra aðila. Mér þótti þetta mjög áhugavert og ákvað að kynna mér gæðastjórnun betur. Mér til ánægju komst ég að því að hún væri kennd í Fisktækniskólanum í Grindavík og ég gæti tekið námið með vinnu. Ég ákvað að láta slag standa og fór í námið haustið 2016 og lauk því vorið 2017.

Til þess að stytta mér leið inn í gæðastjórnarnámið fór ég í raunfærnimat. Rekjanleika afurða þekkti ég vel frá því ég starfaði í Hvalstöðinni og einnig höfðum við byggt upp rekjanleikakerfi í innréttingasmíði hjá Grindinni ehf þar sem ég vann lengst af sem smiður. Þessi þekking og reynsla auðveldaði mér að standast raunfærnimatið auk þess sem ég hafði lokið meistaraskólanum í minni iðngrein, þar sem hafði tekið bókleg fög sem nýttust vel.

Ég fór í Fisktækniskólann með það í huga að starfa við gæðastjórn að námi loknu. Ég hafði áhuga á að skipta um starfsvettvang eftir að hafa verið lengi í smíðunum. Ég var heppinn því fljótlega eftir að náminu lauk bauðst mér starf gæðastjóri hjá Þorbirni hf. í Grindavík sem framleiðir ferskar, saltaðar og frystar afurðir. Ég vinn að ýmsum þáttum gæðastjórnar í landvinnslunni og auk þess eru gæðamál sjófrystra afurða á minni könnu. Einnig erum við með tvö línuskip og einn togara sem koma með ferskan fisk að landi og þar skipta gæðin öllu máli.  Ég fæ stundum tækifæri til þess að fara í veiðiferðir með skipunum.

Þetta er fjölbreytt og víðtækt starf og felst ekki síst í því að því að halda utan um fjölþætt regluverk og tryggja að eftir því sé farið. Hlutverk mitt er einnig að taka á móti fulltrúum MAST og annarra eftirlitsaðila þegar þeir koma í úttektir og það sama gildir um fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins. Í starfinu felst líka að sjá um endurnýjun ýmissa leyfa og að öllum gæðastöðlum sé fylgt.”


    Fisktækniskóli íslands

    Víkurbraut 56  |  240 Grindavík, Iceland

    Símar:  4125966  /  4125968  /  4125965
    Vefpóstur:  info@fiskt.is

    Skráning á póstlista