Fréttir

Meiri þekking er alltaf af hinu góða

Meiri þekking er alltaf af hinu góða

segir , skipstjóri og nemandi í netagerð

 

„Það er alltaf gaman að auka þekkinguna og netagerðarnámið nýtist mér auðvitað vel í mínu starfi,“ segir Njáll Gíslason, skipstjóri, sem er einn þeirra sem stunda fjarnám í veiðarfæragerð við Fisktækniskólann í Grindavík. Njáll er á frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni ÍS en hann tekur starfstíma námsins þegar hann er í landi hjá Hampiðjunni á Ísafirði.

„Aðal markmiðið hjá mér með því að fara í þetta nám var að bæta við þekkinguna. Það hafa allir gott af því. En svo auðvitað er það líka þannig að fyrir skipstjórnandann er gott að hafa meiri innsýn í veiðarfærin sem erum að nota og geta verið strákunum á dekkinu betur innan handar ef einhver vandamál eru í veiðarfærunum sem þarf að leysa. Í gegnum námið fæst alhliða þekking á veiðarfærunum og mest á trollveiðarfærunum. Það getur verið mismundandi eftir því hjá hvaða netagerðum starfsnámið er hvaða verkefni eru aðallega þar. Hjá Hampiðjunni á Ísafirði eru verkefnin mest í botntrolli og dragnót,“ segir Njáll.

Hluti námsins snýst um útreikninga og hönnun veiðarfæra og á þann hátt segir Njáll að námið sé fjölbreytt. „Ég vinn mín verkefni hjá Hampiðjunni og þarf að skila starfsnámi mínu þar, til viðbótar því sem ég fæ metið af sjónum. Ég er búinn að vera náminu í þrjú ár núna og planið hefur verið að reyna að klára sveinsprófið í vor en það verður að koma í ljós hvort það gengur upp.“


    Fisktækniskóli íslands

    Víkurbraut 56  |  240 Grindavík, Iceland

    Símar:  4125966  /  4125968  /  4125965
    Vefpóstur:  info@fiskt.is

    Skráning á póstlista