Mikilvægt að hafa yfirsýn og skilning á gæðamálunum
Eggert Bjarnason, hreinlætisráðgjafi hjá INNES ehf:
Mikilvægt að hafa yfirsýn og skilning á gæðamálunum
Í fjórtán ár hefur Eggert Bjarnason starfað að hreinlætisráðgjöf og hreinlætismálum hjá Rekstrarvörum, Olís, Hreinlætislausnum og undanfarið hálft annað ár hjá matvöruheildversluninni INNES ehf. Hann stundaði nám í gæðastjórnun við Fisktækniskólann á vor- og haustönn árið 2017.
„Ég hef starfað hjá INNNES í eitt og hálft ár sem umsjónarmaður gæðamála ferskvara. Í því felst að ég yfirfer alla ferskvöru sem kemur inn til okkar og við seljum áfram til okkar viðskiptavina. Erlendis frá fáum við vörurnar með flugi og gámaskipum. Hlutverk mitt er að ganga úr skugga um að varan uppfylli allar gæðakröfur áður en við sendum þær frá okkur í sölu. Dæmi um ferskvöru er grænmeti sem við kaupum erlendis frá og einnig fáum við það frá innlendum framleiðendum. Alla vörur þarf að grandskoða með tilliti til gæðakrafna áður en þær fara í smásölu. Auk þess framleiðir INNNES vörur sem fyrirtækið selur til birgja, til dæmis veitingastaða, hótela og grunn- og leikskóla og þær vörur þurfa einnig að uppfylla stranga gæðastaðla, m.a. með gerla- og hreinlætismælingum.
Fulltrúar Matvælastofnunar koma reglulega í eftirlitsheimsóknir til okkar til þess að fylgjast með hvernig við vinnum með okkar vörur og þá er mikilvægt að hafa yfirsýn og skilning á því um hvaða þetta allt snýst og geta talað sama tungumál og eftirlitsfólk MAST.
Almennt vil ég segja að gæðastjórnarnámið í Fisktækniskólanum hefur nýst mér mjög vel og aukið öryggi mitt í öllu er lýtur að gæðamálum. Námið jók umtalsvert þekkingu mína á þessu sviði og uppfyllti mínar væntingar.“