Fréttir

Úr byggingabransanum í gæðastjórn í fiskvinnslu

Algirdas Kazulis, gæðastjóri hjá Vísi hf. í Grindavík:
Úr byggingabransanum í gæðastjórn í fiskvinnslu

Fyrir sextán árum kom Litháinn Algirdas Kazulis, þá tuttugu og tveggja ára gamall, til Íslands og fór að vinna hjá byggingarfyrirtækinu Nesbygg í Njarðvíkum. Á þessum árum var mikil þensla í byggingariðnaði, næga vinnu var að hafa og góðir tekjumöguleikar. Algirdas hafði í hyggju að vera hér á landi í nokkra mánuði í því skyni að safna peningum til þess að kosta nám sitt í lögreglufræðum, sem hann var þá byrjaður að læra í heimalandinu. En mánuðurnir urðu að árum. Botnlaust var að gera þar til einn góðan veðurdag síðla árs 2008. Þá skall efnhagshrunið á með miklu atvinnuleysi og gjaldþroti fyrirtækja. Algirdas missti vinnuna en ákvað engu að síður að búa áfram á Íslandi. Fjölskyldan hafði komið sér fyrir í Njarðvík og leið þar vel.

„Skyndilega var ekkert að gera í byggingariðnaðinum og margir útlendingar sem höfðu komið til Íslands eins og ég, til þess að vinna, ákváðu að snúa aftur til sinna heimalanda. Ég ákvað hins vegar að gera það ekki en hugsaði með mér að til þess að styrkja mig á vinnumarkaði hér þyrfti ég að fara í etthvert nám. Ég vissi að það voru ágætir möguleikar á því að fá vinnu í fiski. Fiskvinnslu þekkti ég ekkert og hafði aldrei prófað en ákvað engu að síður að skrá mig í nám í fisktækni í Fisktækniskólanum í Grindavík. Eftir nokkra mánuði bauðst mér vinna í sjávarútvegi, um tima var ég til sjós en síðan vann ég um helgar í Stakkavík í Grindavík og kynntist þar ágætlega öllu ferlinu frá slægingu á fiskinum til neytendaumbúða. Þetta þróaðist smám saman og að loknu fisktæknináminu ákvað ég að halda áfram í Fisktækniskólanun og fór í gæðastjórnun.

Um tíma vann ég hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem verkstjóri gæðamála en vegna þess að fjölskylda mín hafði ekki tækifæri til þess að flytja þangað frá Njarðvík var ég aðeins í nokkra mánuði í Eyjum. Ég fór þá að þreifa fyrir mér með vinnu á Suðurnesjum og bauðst árið 2015 vinna hjá Vísi hf. í Grindavík. Þar starfa ég enn þann dag í dag sem gæðastjóri og líkar vel. Þetta er ábyrgðarmikið og viðamikið starf sem þarf að leggja mikla alúð í. Fiskvinnslan er síbreytileg með hröðum tæknibreytingum og því er mikilvægt að tileinka sér allar breytingar fljótt og vel.

Námið í Fisktækniskólanum var vissulega krefjandi, enda var ég eini útlendingurinn í tólf manna nemendahópi. Íslenskan mín var á þessum tíma ekki alveg upp á það besta en ég gat líka bjargað mér á ensku. En mikilvægast var að mæta vel í allar kennslustundir og ég ákvað að nota íslenskuna eins og ég gæti og fékk góða hjálp frá kennurum og samnemendum mínum þannig að námið gekk ágætlega. Fyrir það er ég þakklátur,” segir Algirdas Kazulis.


    Fisktækniskóli íslands

    Víkurbraut 56  |  240 Grindavík, Iceland

    Símar:  4125966  /  4125968  /  4125965
    Vefpóstur:  info@fiskt.is

    Skráning á póstlista