Útskrift Marel vinnslutækna fór fram laugardaginn 20.febrúar
Útskrift Fisktækniskóla Íslands fór fram laugardaginn 20.febrúar síðastliðinn við hátíðlega athöfn. Þetta er í fimmta sinn sem skólinn útskrifar Marel vinnslutækna í samstarfi við Marel, nemendur fengu sérstakan viðurkenningar platta og diplómu frá Marel við útskriftin. Það voru sjö sem útskrifuðust að þessu sinni og við óskum þeim innilega til hamingju með flottan áfanga.
Árið 2017 endurnýjuðu Marel og Fisktækniskóli Íslands samning um áframhaldandi samstarf til næstu þriggja ára, þar sem Marel sér skólanum fyrir kennsluaðstöðu, aðgengi að tækjum og kennurum í þeim greinum sem lúta að tækjum Marels. Vegna Covid var ekki hægt að klára námið 2020 en að lokum var hægt að klára og útskrifa flottan hóp sem að mestu voru starfsmenn frá Brim.
Hátæknivinnsla framtíðarinnar kallar á vel menntað starfsfólk. Tæknistigið í íslenskum fiskvinnslum hefur aukist með tilkomu nýrra tækni sem byggist á tölvustýrðum tækjum og línum. Það hefur því aldrei verið meiri þörf á sérhæfðu starfsfólki í fiskvinnslu með góðan bakgrunn í tækni og hugbúnaði.
„Hlutverk Marel vinnslutæknis er að sjá til þess að Marel tæki og hugbúnaður í vinnslunni séu að vinna á sem skilvirkastan máta og þannig má skapa aukin verðmæti og hámarka afköst, samtímis því að halda góðum gæðum. Námið er þannig stór þáttur í því að efla menntun og færni starfsmanna í sjávarútvegi.