1. JAFNRÉTTISSTEFNA
Fisktækniskóla Íslands setur sér eftirfarandi jafnréttisstefnu sem byggð er á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008, með áorðnum breytingum; einnig lögum um jafnlaunavottun 56/2017 og meðf. reglugerð.
Markmið jafnréttisstefnu er að tryggja að fyllsta jafnréttis kynjanna sé gætt í hvívetna í skólanum og að bæði nemendur og starfsfólk fái notið sín á eigin forsendum án tillits til kynferðis. Halda skal sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í öllu starfi innan skólans sé þess kostur. Markvisst skal unnið að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum skólans. Kynbundin mismunun er óheimil, í hvaða formi sem hún birtist og skal vinna á virkan hátt gegn slíkri mismunun. Kynbundið ofbeldi eða áreitni er ekki liðin. Með jafnréttisstefnu skólans er unnið markvisst að því að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og að vinna gegn neikvæðum staðalímyndum. Jafnréttisstefnu Fisktækniskóla Íslands er fylgt fram með jafnréttisáætlun.
Þessi jafnréttisáætlun er kynnt almenningi á heimasíðu Fisktækniskóla Íslands.
2 .JAFNRÉTTISÁÆTLUN
Jafnréttisáætlun Fisktækniskóla Íslands er verkfæri til þess að hrinda stefnunni í framkvæmd með markvissum hætti. Jafnréttisáætluninni er skipt í tvennt og tekur annar hlutinn til vinnustaðarins, þ.e. starfsfólks skólans og reksturs hans, en hinn hlutinn til nemenda, náms og kennslu, þ.e. skólastarfsins. Áætlunin er liður í því að jafna stöðu og virðingu kvenna og karla innan skólans og minna starfsfólk, stjórnendur og nemendur á mikilvægi þess að allir fái notið sín án tillits til kynferðis.
Jafnréttisnefnd Fisktækniskóla Íslands ber ábyrgð á að gera jafnréttisáætlun á grundvelli jafnréttisstefnu skólans.
Jafnréttisáætlun nær til allrar starfsemi skólans. Stjórnendur bera sameiginlega ábyrgð á framgangi jafnréttismála. Gæðastjóri er fulltrúi stjórnenda sem ber ábyrgð á innleiðingu á jafnlaunakerfinu (IST-085:2012). Stjórnendur skuldbinda sig til þess að fylgja lögum sem varða jafnan rétt kynja til launa fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Þeir sjá um að halda uppi stöðugum umbótum sem varða jöfnun á kynbundnum launamun fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf innan hvers stéttarfélags. Ef kynjabundin ójöfnuður launa kemur upp ber að bregðast við því skv. umbótaferlum skólans og fylgja verkferli „Úrbætur áhættugreining“ . Að jafnaði skal þess gætt að óútskýrður kynbundinn launamunur sé ekki meira en 3%. Yfirstjórn og gæðastjóri í hennar umboði skulu: 1. hafa gætur á að jafnréttisáætlun sé fylgt; 2. óska eftir því að yfirstjórn ræði reglulega um jafnréttismál og leggja fram tillögur um sértækar aðgerðir í samræmi við markmið jafnréttisáætlunar; 3. afla tölfræðilegra upplýsinga um þætti sem varða áætlunina og 4. gera tillögur að endurskoðun hennar.
Áætlunina skal endurskoða á þriggja ára fresti og meta með hliðsjón af jafnréttisstefnunni og þeim árangri sem náðst hefur samkvæmt settum mælikvörðum.
2.2 VINNUSTAÐURINN
Þeir þættir sem litið er til eru
- Ráðningar. Hafa skal bæði kynin í huga þegar störf eru auglýst og leitast við að halda hlutfalli kynjanna eins jöfnu og frekast er unnt. Gæta skal jafnréttissjónarmiða til jafns á við önnur sjónarmið við ráðningar í skólanum.
- Ráðningarkjör. Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað og skulu viðmið við ákvörðun launa vera skýr og öllum ljós. Við ákvörðun launa er unnið skv. jafnlaunastaðli ÍST-85:2012 sem er grundvöllur fyrir vottunarkerfi að því er varðar launajafnrétti kynja í skólanum.
- Starfsaðstæður. Innan skólans skal leitast við að gera öllum óháð kyni kleift að samræma sem best starfsskyldur sínar og fjölskylduábyrgð s.s. vegna óska um töku fæðingar- og eða foreldraorlofs, eftir því sem starfstími og skipulag kennslu leyfir.
- Endurmenntun, símenntun og starfsþjálfun. Allt starfsfólk óháð kyni á að hafa jafna möguleika til að sækja sér endurmenntun, símenntun og starfsþjálfun við hæfi.
- Starfsframi, verkefni og ábyrgð. Starfsfólk óháð kyni skal hafa jafna möguleika á starfsframa innan skólans. Gæta skal jafnréttissjónarmiða við skiptingu verkefna og deilingu ábyrgðar meðal starfsfólks. Við skipan í nefndir og ráð skal gæta þess að kynjahlutfall sé sem jafnast. Starfsaðstæður skulu taka mið af kynjasjónamiðum og stefnt er að jöfnum áhrifum karla og kvenna í skólanum.
- Allir starfsmenn eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti hvorki kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri né kynbundinni áreitni. Kynbundið áreiti er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
- Einelti og kynferðisleg áreitni. Allt starfsfólk og nemendur eiga rétt á að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti ekki einelti, kynferðislegri né kynbundinni áreitni. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni er ekki liðin innan Fisktækniskólans:
- Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.
- Kynbundin áreitni er hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn hegðun.
- Kynbundið ofbeldi er ofbeldi, hótun um ofbeldi, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis á grundvelli kyns, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi, sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður. Hatursorðræða og/eða móðgandi ummæli/hegðun sem tengist litarhætti, kynhneigð, þjóðernisuppruna, fötlun o.fl., grefur undan sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og hefur oft það að markmiði að styrkja neikvæðar staðalmyndir um viðkomandi minnihlutahóp.
- Telji starfsfólk sig verða fyrir kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni má leita til skólameistara, mannauðsstjóra, trúnaðarmanna stéttarfélaga eða jafnréttisfulltrúa skólans eins og fram kemur í starfsmannastefnu. Í framhaldi er unnið í málinu í samráði við þann sem telur á sér brotið. Haft er samband við aðila málsins og hvorum/hverjum aðila um sig gefinn kostur á að tjá sig um málsatvik. Leitað er sátta ef svo ber undir en málinu komið í lögformlegan farveg takist það ekki eða grunur leikur á að lögbrot hafi verið framið. Á öllum stigum skal tryggt að aðilum máls sé veittur viðhlítandi stuðningur, vilji þeir á annað borð þiggja slíkt.
- Fræðsla um kynbundið ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni er stöðugt ferli sem miðar að því að allt starfsfólk verði meðvitað um málefnið, geti greint slíkt atferli og brugðist við því ef svo ber undir, sbr 22. gr. jafnréttislaga sem segir að yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum.Telji starfsmaður að jafnrétti sé brotið eða farið á svig við reglur skólans skal hann leita til skólameistara og/eða trúnaðarmanns sem finna málinu farveg.
2.3 SKÓLASTARFIÐ
Í öllu skólastarfi, námi, kennslu og skólanámskrá skal gæta jafnréttissjónarmiða. Jafnframt skal ýtt undir gagnrýna umfjöllun um hefðbundna kynjaskiptingu og kynhlutverk í námi eftir því sem tilefni gefst til.
- Í námi, félagsstarfi og framkomu fyrir hönd skólans á öllum vettvangi skal ávallt gæta þess að kynjahlutföll séu sem jöfnust.
- Í kennslu skal unnið markvisst að því að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og eins skal unnið gegn neikvæðum staðalímyndum. Áhersla er lögð á að stuðla að sjálfsvirðingu og sjálfstæði beggja kynja.
- Áhersla er á að uppfræða nemendur sérstaklega um jafnrétti kynjanna og nemendur þjálfaðir í að vinna gegn hvers kyns misrétti.
- Lögð er áhersla á að gefa nemendum kost á að vera virkir og skapandi í starfi óháð kyni. Stefnt er að því að draga úr menningarbundnum kynhlutverkum (val á kynbundnum námsleiðum/hugmyndir um hefðbundin karla og kvennastörf) með fræðslu, starfs og námsráðgjöf.
- Kennarar eru fyrirmyndir sem eiga að stuðla að jafnrétti í orði og í verki. Halda skal fræðslufundi og námskeið fyrir starfsfólk sem snerta jafnréttismál reglulega.
Telji nemandi að jafnrétti sé brotið eða farið á svig við reglur skólans skal leitað til skólameistara, námsráðgjafa eða starfsfólks sem finna málinu farveg.
sjá nánari upplýsingar Jafnréttisstefna