Ferðalag til Noregs
Höfum verið á skólaferðalagi með nemendur okkar hér í Þrændalögum í Noregi síðustu 8 dagana. Það er skemmst frá því að segja að þessi ferð hefur í alla staði staðið undir þeim væntingum sem við gerðum til hennar. Við höfum undanfarin ár heimsótt bæði North Sea College í Thybøron i Danmörku og Strand framhaldsskólann í Tau í Rogaland en vegna ferðar okkar til Færeyja í mars ákváðum við að heimsækja bara Noreg þetta vorið n.t.t Guri Kunna framhaldsskólann í Sistranda sem er á eyjunni Frøya í Syðri-Þrændalögum í miðjum Noregi.
Þar tók á móti okkur Martin Sæther kennari við skólann en hann skipulagði dagskrá fyrir okkur þann tíma sem við dvöldum hjá þeim. Við fengum að sjálfsögðu leiðsögn um skólann og allt sem þar fer fram, aðstæðurnar og þau tæki og tól sem skólinn hefur yfir að ráða. Það verður að segjast að skólinn er búinn nánast öllu sem hægt er að hugsa sér að svona skóli þurfi.
Síðasta sunnudag heimsóttum við bæinn Titran sem mjög kom við sögu í heimstyrjöldinni síðari og þar eru hreint ótrúleg neðanjarðarhýbýli sem nasistar byggðu (þ.e.a.s stríðsfangar þeirra) í klettana við ströndina. Algerlega ótrúlegt. Við Tritan er líka hæðsti viti (Sletringen) í Noregi og er sagan af honum algerlega þess virði að fletta upp á í Google.
Til að gera langa sögu stutta þá fengum við að upplifa það m.a að týna jurtir í náttúrunni sem við notuðum svo í eldamennsku en við elduðum lúðu með allskyns jurtum og kryddum og smakkaðist hún bara aldeilis vel.
Heimsóttum uppsjávarskipið Svensaug Elise þar sem skipstjórinn Kjartan Ervik fylgdi okkur um skipið allt frá brú og niður í vélarrúm og sýndi okkur allt sem máli skiptir um borð í svona glæsilegu skipi.
Við sigldum á skólaskipinu út á haf og vitjuðum um humargildrur, heimsóttum Scale fyrirtækið sem framleiðir sjókvíar og allskonar hluti fyrir fiskeldið. Við heimsóttum líka höfuðstöðvar Salmar sem er eitt af stærstu fiskeldisfyrtækjum heims og skoðuðum vinnslunna þeirra í Nordskaget sem er ævintýralegur staður með um 1000 starfsmenn.
Við sigldum líka út í sjókvíaeldi fyrirtækisins Lerøy sem liggur vestan við Frøya og fengum að skoða allt sem þar fer fram. Skoðuðum kvíar, ræddum við starfsmenn og fengum leiðsögn um fóðurprammann. Eftir það heimsóttum við laxaflutingaskipið Ronja Princess sem sér um að flytja laxinn frá kvíum í skátrum. Kenneth skipstjóri leiddi okkur um skipið og það var aldeilis mikil upplifun.
Enduðum þessa heimsókn með því að heimsækja seiðaeldisstöð fyrirtækisins Mowi sem einnig er eitt af stærstu fiskeldisfyrtækjum heims í Slørdal. Þar vorum við leiddir í allan sannleikann um seiðaeldi allt frá klaki þar til seiðum er sleppt út í sjókvíar. Þessi ferð hefur eins og allar okkar ferðir verið einstaklega skemmtileg og ekki síst fræðandi bæði fyrir okkur kennara en þó sérstaklega nemendur okkar sem munu halda heim margs vísari um fiskeldibransann í Noregi og heim allan.
Hér hefur bara verið stiklað á stóru en frásögnin ætti að gefa lesendum nokkra innsýn í svona skólaferðalag sem enginn annar skóli á Íslandi býður upp á.