Heimsókn til Danmerkur

Í vikunni sem leið héldum við í Fisktækniskólanum í stutta heimsókn til Danmerkur með nemendur okkar n.t.t til North Sea College ( Fiskeriskolen) í Thyboron. Það er óhætt að segja að þessi ferð var eins og flestar ferðir sem við höfum farið með nemendur okkar, lærdómsrík, fræðandi en umfram allt skemmtileg. Nemendur fengu að sjá og reyna ýmislegt nýtt og framandi eins og t.d skeldýrasetur, matreiðslu og landbúnaðarskóla og prófunarstöð fyrir vindmyllur.

Þau kíktu í strandbæinn Vorupor sem er vinsæll ferðamannastaður. Nemendur heimsóttu fiskmarkaðinn í Thyboron þar sem þeir keyptu þorsk, lýsu og skarkola sem þau síðan flökuðu, snyrtu og að lokum matreiddu fyrir sig sjálf og nemendur Nord Sea College. Þau litu við í stærstu toghleraverksmiðju heims og sáu björgunarmiðstöðina í Thyboron.

Þau heimsóttu líka Struer fri og fagskole en þar er kennslan er gjörólík því sem flestir eru vanir. Þetta er skóli algerlega á aðgreiningar þar sem nemendur læra gegnum verkleg verkefni og vinna meira í vinnustofum en við töfluna.

Síðasta skipulagða heimsóknin í þessu stutta skólaferðalagi okkar var í Hvide Sande skipasmíðastöð Vestværftet sem býður upp á framúrskarandi lausnir og getur aðstoðað við alla þætti skipasmíðaverkefna, allt frá skipulagningu, hönnun, mati á byggingarkostnaði, fastri verðlagningu og framkvæmd samþykktra verkefna. Skipasmíðastöðin Hvide Sande hefur einnig sérhæft sig í endurgerð og viðhaldi á fjölbreyttum skipum. Aldeilis frábær heimsókn.

Eftir þessa viðkomu í Hvide Sand hélt hópurinn til Herning þar sem nemendur fengu að rápa aðeins um í búðum í verslunarmiðstöð bæjarins. Síðasta deginum vörðum við síðan í Legolandi þar sem að hópurinn sletti hressilega úr klaufunum áður haldið var aftur til Kaupmannahafnar til gistingar og síðan var flogið heim daginn eftir.

Next
Next

Fisktækniskóli Íslands fagnar fánadegi Heimsmarkmiðanna