FISKTÆKNI

Inntökuskilyrði 

Inntökuskilyrði í grunnnám fisktækni eru samkvæmt framhaldsskólalögum og skólanámskrá Fisktækniskóla Íslands. Þeir sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun og náð 16 ára aldri eiga rétt á að hefja grunnnám í fisktækni. Kröfur um undirbúning og önnur skilyrði innritunar skulu miðast við skólaeinkunnir við lok grunnskóla og aðra þætti sem staðfesta að nemendur hafi nægan undirbúning til að stunda nám á viðkomandi námsbraut. Skólameistari getur heimilað nemendum, sem ekki uppfylla skilyrði til innritunar að fullu, að hefja nám ef telja má líklegt að þeir standist þær kröfur sem gerðar eru um námsárangur. Einstaklingar utan skóla eiga þess kost að gangast undir raunfærnimat. Þeir geta nýtt niðurstöður matsins til skipulagningar náms á framhaldsfræðslustigi, til styttingar náms, eða til staðfestingar á hæfni sinni á vinnumarkaði.

Grunnnám

Grunnnám starfsgreina í fisktækni er tveggja ára nám í skóla og á vinnustað. Námið er til undirbúnings starfa og framhaldsnáms í fiskveiðum, fiskvinnslu og fiskeldi. Námið skiptist í almenna bóklega áfanga, fagbóklega áfanga og vinnustaðanám. Fyrsta og þriðja önn námsins fara fram í skóla en önnur og fjórða á vinnustað. Almennir bóklegir áfangar (íslenska, enska, stærðfræði) eru samkvæmt fyrirmælum aðalnámskrár framhaldsskóla á fyrsta og öðru hæfniþrepi. Nemendur skulu ljúka þeim á námstíma sínum. Vinnustaðanám byggir á nánu samstarfi viðkomandi framhaldsskóla og fyrirtækja í veiðum, vinnslu og fiskeldi. Fagáfanga má bjóða í fjarkennslu. Samstarf er við Tækniskólann – skóla atvinnulífsins um skipstjórnarnám og vélgæslunám. Samstarf er við Slysavarnaskóla sjómanna um öryggismál til sjós. Samstarf er við Vinnueftirlitið um kennslu á vinnuvélar og þjálfun. Vinnustaðanám byggir á nánu samstarfi skóla og fyrirtækja í veiðum og vinnslu. 

Vinnustaðanám

 Vinnustaðanám er önnur meginstoð í námsframboði grunnnáms fisktækni. Vinnustaðanám á fyrsta ári er skipulagt á grunni skráningar- og aðhaldskerfis skólans þar sem megináhersla er á að nemendur kynnist sem flestum þáttum sjávarútvegs með heimsóknum í stofnanir og fyrirtæki og með þátttöku í störfum tengdum fjölbreyttum fiskiðnaði. Vinnustaðanám á öðru ári er skipulagt með það í huga að nemendur hafi ákveðnari hugmyndir hvert þeir vilja stefna með sínu námi. Starfsnám þeirra byggist því í ríkara mæli á ákveðnari viðfangsefnum og til lengri tíma á vinnustað. þeirra nám fer fram á grundvelli skráninga í ferilbók um námsframvindu og árangur, sem er framkvæmt í samstarfi nemanda og tilsjónarmanns hanns. Einn af kennurum skólans mun hafa það verkefni að fylgja nemendum eftir í vinnustaðanáminu og vera tengiliður skóla við tilsjónarmann viðkomandi fyrirtækis . Námið er á ábyrgð skólans sem annast útvegun námsplássa í samráði við nemendur og í samræmi við áhugasvið þeirra. Ekki er gert ráð fyrir að nemendur fái laun meðan á starfsnámi stendur. Í vinnustaðanámi er sérstaklega gætt ákvæða vinnuverndarlaga og reglugerða um vinnu barna og unglinga. Skipulagning vinnustaðanáms nemenda skal taka tillit til öryggis og andlegs og líkamlegs heilbrigðis þeirra. Vinna skal ekki hafa truflandi áhrif á þroska þeirra og nám. .   

Námsmat

Námsmat byggir á verkefnum nemenda og lokaprófum áfanga þar sem við á. Viðurkenndir prófdómarar meta námsárangur nemenda í áföngum sem veita formleg réttindi; skipstjórn smáskipa, vélgæslu smáskipa, stjórnun vinnuvéla og Slysavaraskóla sjómanna. Námsárangur vinnustaðanáms er metinn samkvæmt skráningarkerfi skólans um námið og ferilbóka sem tilsjónarmaður færir í samvinnu við nemanda. Raunfærnimat er í boði fyrir fólk á vinnumarkaði. Áfangar eru metnir til framhaldsskólaeininga (fein) í samræmi við námskrá. Vinnustaðanám er jafnframt metið til eininga í samræmi við lengd á lotum. Námsmat tekur mið af lokamarkmiðum áfanga og brautar samkvæmt kröfum um þekkingu, leikni og hæfni. Jafnframt er nemendum og fólki á vinnumarkaði gefinn kostur á að staðreyna þekkingu sína, leikni og hæfni með raunfærnimati eða stöðuprófum.

 Reglur um námsframvindu

Reglur um námsframvindu eru samkvæmt skólareglum. Nemendur skulu skulu sækja allar kennslustundir stundvíslega, hafa meðferðis námsgögn og sinna heimanámi sínu af kostgæfni. Miðað er við að mæting í áfanga sé að lágmarki 90% af heildartímafjölda.

 Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...

  • starfa í matvælaframleiðslu þar sem hámarksnýting hráefna og gæði afurða eru lykilatriði

  • fjalla um framleiðsluferli fiskveiða og fiskeldis, vinnslu og neyslu fiskafurða (virðiskeðju)

  • sýna fyllstu aðgát og ábyrgð við stjórnun og umgengni við vélar, bæði til sjós og lands

  • meta afstöðu sína, getu og áhuga á áframhaldandi námi og störfum í veiðum vinnslu og fiskeldi

  • bera ábyrgð á eigin heilsufari og tileinka sér lífshætti sem stuðla að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan og velferð

  • taka afstöðu til starfsumhverfis og starfsaðstöðu og vera fær um að koma með tillögur til úrbóta, sjálfum sér, samstarfsfólki, fyrirtæki og umhverfi til hagsbóta

Hér má sjá námsbraut